fimmtudagur, 5. febrúar 2004

Af Ljenzherrans sveitadvölum
Ljenzherrann af Kaffisterkt varði æskusumrum sínum í sveit en ekki í letingjaþjálfun á vegum borgarinnar, leti hans er því sjálflærð. Í sveitardvölum þessum var Ljenzherrans helsta skemmtan að standa úti á hlaði og hrópa ýmis ókvæðisorð sem bergmáluðu lengi á eftir í fjöllunum í kring. Uppátækin þennan tíma voru mörg og er ætlunin að greina frá einu skondnu atviki hjer og nú.

Áður en lengra er haldið ber að kynna til sögunnar hina íslenzku mjólkurkú. Kýr þessi er til í ýmsum litum en öll afbrigði eiga það sameiginlegt að slefa mikið og að gera allt sem í kýrlegu valdi stendur til að komast til fyrirheitna landsins, hinum megin girðingarinnar. Þar ku grasið grænna en áður hefir þekkst.

Yfir sumarmánuðina eru kýrnar hafðar úti, en sóttar tvisvar á dag til mjalta. Kostuleg er sú sjón er þeim er hleypt út fyrsta skiptið sumar hvert. Þá fyllast þær víðáttubrjálæði hinu mesta og ekki er til sú kýr sem svo vönd er að virðingu sinn að ekki hoppi hún um og skoppi, sem gelgja á tónleikum hjá Róberti Vilhjálmssyni.

Eru þær hafðar í sjerstökum girðingum milli þess sem gómsætur beljudjúsinn er kreistur úr þeim. Með tilurð rafmagnsins varð alger bylting þar á, en þá komu til sögunnar léttar nautgripaheldar girðingar sem hægt var að stækka með lítilli fyrirhöfn. Er slík eksersísa iðkuð daglega þar sem kýr vilja eigi sjá það gras sem hefir verið traðkað niður eður á kúkað.

Á bæ þeim er Ljenzherrann var á voru þeir tveir kaupamennirnir, Ljenzherrann sjálfur og piltur nokkur ári eldri en Ljenzherrann, og góðum meter hærri. Um hinn eldri mælti bóndinn eitt sinn undir fjögur að betur hefði mátt vanda til slummunnar sem fór í risann Sívert Seppason, eða öðrum kosti dreifa henni betur og eyða ekki öllu púðrinu í hæðina.

Af þessu má greina að Ljenzherrann var settur í öll hin ábyrgðarmeiri embætti en Síverti Seppasyni voru falin ýmis störf svo sem að sækja kýrnar og stækka fyrir þær girðinguna.

Þegar girðingin er færð út er slökkt á tæki því sem sendir úr sjer rafpúlsa af hárri spennu. Rafpúlsum þessum er ætlað að sýna kúm hvar Davíð keypti ölið og aftra þeim frá því að elta meðfæddan draum sinn um að komast í grænna gras. Engin tækni er þó fullkominn og fá menn einnig að kenna á því, snerti þeir girðinguna.

Tækið skammtar straum fyrir nautgripi, þar sem þeir eru um fimmhundruð kíló af þyngd en maðurinn einungis 70 má því ætla að hann fái heldur verri útreið en forvitin belja. Til marks um ánægjuna sem hlýst af því að fá stuð úr slíkri girðingu má nefna að hver kýr fær að jafnaði einungis einu sinni straum um ævina, og eru þær þó forvitnari en allt sem forvitið er.

Einn morguninn er Sívert Seppason var lagður af stað að færa út girðinguna laumast Ljenzherrann á eftir honum. Sívert slekkur á rafgirðingartækinu sem staðsett er við hliðið og heldur af stað til að sinna skyldum sínum. Er Sívert Seppason er kominn í hvarf og farinn að taka upp staura og losa vírinn stekkur Ljenzherrann úr fylgsni sínu og kveikir á girðingunni.

Óperan sem bergmálaði þá um Þverárhlíðina líður Ljenzherranum seint úr minni, angistarópin voru slík að ætla mætti að Sívert nokkur Seppason væri til meðferðar hjá píningarmeisturum miðalda. Þegar óhljóðin þögnuðu loks slekkur Ljenzherrann aftur á girðingunni og skríður í fylgsni sitt.

Sívert kemur loks arkandi, bölvandi og tautandi og rýkur beint að tækinu en uppgötvar sjer til mikillar furðu að slökkt var á því. Einnig vakti það undrun hans að ein tunnan skyldi vera farin að flissa, en það varð honum ekki tilefni til frekari vangaveltna.

Er Sívert hefir í sporum sínum staðið um stund og klórað sjer duglega í toppstykkinu heldur hann af stað aftur. Er hann er kominn í hvarf stekkur Ljenzherrann úr tunnunni með sitt breiðasta glott og endurtekur leikinn.

Ekki voru öskrin minni í seinna skiptið og eitt af því erfiðasta sem Ljenzherrann hefir lent í um sína daga var að halda skilningsríkum svip á andliti sínu á meðan Sívert greyið Seppason greindi grandalaus frá raunum sínum.

Engin ummæli: