sunnudagur, 29. febrúar 2004

Af Ljenzherrans halarófugerð.
Eitt er það embætti sem Ljenzherrann skorast aldrei undan, en það er að vera “kónga-stjóri.” Leiðir hann lest sína um borg og bí af ítrustu vandvirkni og gætir þess statt og stöðugt að beygja reglulega, svo fólkið hafi nú örugglega sem mesta skemmtan af.

Síðastliðið föstudagskvöld var enn einni rósinni stungið í Ljenzherrans hnappagat varðandi dansinn “kónga” en mál manna er það að Ljenzherrann hafi náð áður óþekktri fullkomnun í halarófugerð og vart hafi hann tekið beygju sem honum var eigi hrósað í hástert fyrir.

“Dásamleg hægribeygja kæri Ljenzherra”
“Alveg hárrjettur tími fyrir vinstri-snú, herra Ljenzherra” og svo mætti lengi telja

Sem dæmi um uppátækjasemi Ljenzherrans á þessu sviði má nefna að hann gerði sjer lítið fyrir og tók hreppstjórabeygju við mikinn fögnuð viðstaddra.

Hafa halarófur þessar hlotið svo mikið lof að sótsvartur almúginn flykkist á göturnar til að taka þátt. Gildir þá einu hvort að “Gísli Baldursson” sje með svokallaðan skemmtiþátt sinn í sjónvarpinu eða ei, allir vilja taka þátt í Ljenzherrans kónga.

Að vísu skapar tiltæki sem þetta viss vandamál og mátti minnstu muna að illa færi er kviknaði í Menntaskólanum í Reykjavík á sama tíma og Ljenzherrann leiddi borgarbúa í halarófu. Ófært var um öll stræti sakir mannmergðar og komst slökkviliðið því hvorki lönd nje strönd.

Hefði þessi fagra og sögufræga bygging brunnið til kaldra kola væri Ljenzherrann ekki jafn útsjónarsamur og hann er góður halarófustjóri. Svo heppilega vildi til að í vasa sínum hafi Ljenzherrann tíuþúsund fötur sem hann dreifði á viðstadda, gaf hann svo Gavoni fyrirmæli um að leiða á eftir sjer hóp manna, í halarófu, niður á Tjörn. Er Ljenzherrann hafði gefið Gavoni fyrirmælin sparkaði hann duglega í hann, til að undirstrika orð sín og hjelt svo af stað með hersinguna niður á höfn.

Var mannfjöldinn slíkur að Ljenzherrann komst tólf sinnum fram og til baka og fyrirskipaði svo að nú skyldu föturnar látnar ganga og eldurinn slökktur.

Slökkvistarfið gekk greiðlega fyrir sig og eldurinn hafði verið slökktur tilkynnti Ljenzherrann að í verðlaunaskyni myndi hann fara fyrir halarófu í kringum höfuðborgarsvæðið gervalt.

Við mikil fagnaðarlæti lagði Ljenzherrann keikur af stað, beinn í baki og sveiflaði halanum af skötunni tígullega í kringum sig.

Já, það eru forrjettindi að lifa slíka tíma að Ljenzherrann spígspori um strætin, með halarófu á eftir sjer.

Engin ummæli: