þriðjudagur, 10. febrúar 2004

Af kvenmannslíkömum, barnagerðarvjelum og sívalingum.
Kvenmannslíkaminn er dásamlegt apparat. Ekki einasta er hann skapaður af stakri smekkvísi og út frá fagurfræðilegum forsendum heldur hýsir hann einnig ýmsan vjelbúnað. Vjelbúnaður þessi er saman settur af hinu mesta hugviti og ber þar hæst að nefna lottómaskínuna og barnagerðarvjelina sem framleiðir börn, fái hún til þess viðeigandi uppskrift.

Lottóvjelin virkar þannig að hún er sneisafull af kúlum sem hún degur úr eina og eina af handahófi og sendir niður sjerstaka stokka. Í kúlum þessum eru 23 uppskriftarstrimlar sem barnagerðarvjelin brúkar til að smíða börn en alls þarf hún 46. Ferli þetta hefir af vísindamönnum verið nefnt genahappadrættið, en dregið er mánaðarlega.

Haldið er kappsund um það hver fái að leggja til hinn helminginn af strimlunum. Keppendur eru fluttir á keppnisstað í sjerstökum sívaling sem stungið er inn í vjelarsal þann er barnagerðarvjelin leynist í. Sömu dyr nýtast fyrir sívalinginn og fullunnar afurðir barnagerðarvjelarinnar og er það til marks um góðan arkítektúr.

Er úrslitin úr genahappadrættinu og kappsundinu eru orðin ljós getur barnagerðarvjelin tekið til starfa. Vjelin tekur nú til við að smíða einstakling eftir kúnstarinnar reglum og þegar framleiðslan er komin á ákveðið stig tengir vjelin slöngur sem sinna því hlutverki að flytja næringu til hins dafnandi lífmassa.

Það tekur vjelina níu mánuði að hnoða saman einu barni og er því skilað út um færiband þegar það er tilbúið.

Þegar barnið rennur af færibandinu er næringarslangan aftengd en hennar í stað getur barnið sogið heilnæman elixír úr tveimur túðum sem eru til þess gerðar.

Engin ummæli: