sunnudagur, 4. janúar 2004

Ljóst er að Ljenzherrann hefir lítið gjört af því að birta hugsanir sínar og þankagang á netinu undanfarið. Ástæða þessa er sú að erfiðisvinnan, þar sem Ljenzherrann puðar í svita síns andlits, veitir Ljenzherranum þá andlegu líkn sem hann hefir til þessa fengið frá skrifum. Eru sleggjan, hamarinn og kúbeinið á við hið besta geðlæknatríó og fær Ljenzherrann jafnvel borgað fyrir að níðast á þessum líknurum sínum.

Þau tíðindi hentu í dag að Faðir Ljenzherrans af Kaffisterkt, Barón von Bráðar, ljet gifta sig. Brullaupið var haldið í Neskirkju og kom það í hlut Jónmundar, ættbálkshöfðingja þeirra Seltirninga, að fá fyrstu nóttina með brúðinni, eins og vera ber.

Var brullaupið afar hátíðlegt og gestir almennt dannaðir og lítið um handalögmál og framíköll á meðan athöfninni stóð. Var það þá helst inn þriggja ára Ljenzherrans bróðir sem gólaði í kapp við prestinn. Fjekk hann að sitja í öndvegi með foreldrum sínum og átti nokkra góða spretti. Söng hann til að mynda “í skóginum stóð kofi einn” á meðan síra Sígúrd fór með hjúskaparheitin. Til að kóróna allt sýndi litli senuþjófurinn töfrabrögð og ljet hverfa inn í altarið á meðan hringarnir voru settir upp. Fannst sá stutti loks í einni orgelpípunni og þegar Ljenzherrann hóf að rannsaka málið komst hann að raunum um að í altarinu er falin flóttaleið. Komist klerkur í bobba getur hann flúið í orgelpípu eina og er organistinn spilar G fís fara af stað loftdælur miklar og prestinum skotið upp eins og rakettu á vit yfirmanns síns.

Í veislunni sem á eftir fylgdi var drukkinn tvímenningur og stigu menn svo dans við dillandi tóna frá langspili og sítar. Meira að segja þeim mönnum sem höfðu komið að þrjár dagleiðir og yfir straumvötn þótti þetta allt samant ákaflega vel heppnað og fararinnar virði.

Engin ummæli: