fimmtudagur, 29. janúar 2004

Ljenzherrann gerir að skötunni gys.

Varúð! óráðlegt þykir að lesa það sem hjer fer á eftir hafirðu eigi lesið færsluna þann 27. jan.

Ljenzherrann og Gavon brugðu sjer í leiðangur í gær. Leiðangur þessi var farinn til að ögra skötunni og hlæja upp í opið geðið á henni.


Ljenzherrann hafði verið á bókhlöðu þjóðar og einu sinni sem oftar tekið Gavon með sjer, enda fer lítið fyrir honum þegar hann dundar sjer við að lita og teikna. Reyndar líkar Ljenzherranum eigi allskostar við myndir þær sem Gavon teiknar en flestar eru þær af heilum, sundurbútuðum mannslíkömum eða miðtaugakerfum. Verst þykir Ljenzherranum svo er Gavon talar tungum og ritar inn á myndirnar hin furðulegustu heiti.

En lítinn grið fjekk Ljenzherrann til náms fyrir skötunni, vomdi hún yfir þeim sem vofa og í hvert skipti sem þeir uggðu eigi að sjer gerði hún atlögu. Ljenzherrann fjekk sig að lokum fullsaddann, barði í borðið og tjáði Gavoni að nú skyldu þeir sýna skötunni í tvo heimanna.

Ljenzherrann hafði þá um morguninn bruggað kaffi-sterkt í stóran brúsa og gripu þeir hann með sjer og hjeldu niður í Skerjafjörð. Þegar þangað var komið tók Ljenzherrann samanbrjótanlegt altari og tvö Depa-plastmál úr pússi sínum. Altarinu stillti hann upp við flæðarmálið og tóku þeir Gavon síðan til við að klæðast kuflum og fylla vasa þeirra af kaffibaunum.

Embættislegur á svip skrúfaði Ljenzherrann tappann af brúsanum og Gavon beið sperrtur með málin tvö. Á meðan Ljenzherrann skenkti í glösin tautaði hann fornar töfraþulur í skegg sjer og leit öðru hverju til himins, eins og til að leita sjer styrks.

Starði hann svo til hafs og saup á svartbaunaseiði sínu. Hann hugsaði um öll skiptin sem svefninn hafði sótt að honum. Hann hugsaði um hve skatan væri ósvífin; kornabörn, gamalmenni, páfagaukar, enginn er óhultur fyrir skötunni.

Við hvern sopann magnaðist upp í honum reiðin, fyrst skutu augun neistum og varirnar fóru að titra. Brátt sprakk hann og tók að ráfa tryllingslega um, öskrandi úr sjer líftóruna.

Eftir því sem líða tók á öskrin tóku þau að verða greinast í einstök orð og meðal þess sem heyra mátti var:

“ESPRESSO!!! CAPPUCINO!!! UPPÁHELLINGUR!!! SWISS-MOKKA!!! PICCALO FORTÉ!!! MACCIATO!!! LATTÉ!!! DROPAR TÍU!!! ÁBÓT!!! KAFFI!!! KAFFI-STERKT!!!”

Fyrir hvert þeirra grýtti hann lúku af kaffibaunum úr vasa sínum í átt að hafinu og þeim skötum sem þar kynnu að leynast.

Þegar hvert orð hafði fengið sína sinn skammt af kaffibaunum hellti hann glottandi vænum slurk úr brúsanum í sæinn og freistaði þess að svæla skötuna upp úr, rjett eins og ref úr greni. Allt kom þó fyrir ekki, hvergi sást skatan.

Þegar mesta andaktin var runnin af Ljenzherranum fór hann að velta fyrir sjer hvað hefði orðið af Gavoni. Þegar betur var að gáð lá Gavon sofandi undir altarinu, skatan hafði náð í skottið á honum.

Skatan lætur eigi að sjer hæða.

Engin ummæli: