miðvikudagur, 21. janúar 2004

Ljenzherrann af Kaffisterkt ritar lofgjörð
Ljenzherrann af Kaffisterkt er í kúrsi sem heitir Vatnafræði, í stað heimadæma þessa vikuna ákvað kennarinn að láta nemendur fjalla um á að eigin vali. Eina skilyrðið var það að hún hefði sama upphafsstaf og viðkomandi nemandi. Ljenherrann sló þrjár flugur í einu höggi og valdi sjer Andakílsá. Aldrei hefir önnur eins lofgjörð verið rituð um nokkurt vatnsfall á íslandi og gaman verður að sjá hvursu rauð og rifin lofgjörðin verður þegar kennarinn verður búinn að ljúka sjer af við hana.

Skorradalsvatn hefir löngum heillað margann manninn og gætt líf hans litum og losta með ásýnd sinni einni. En vatn þetta er ekki eigingjarnt, síður en svo. Úr því streymir nefnilega ein fegursta náttúruperla landsins, Andakílsá.


Mynd 1 Skorradalsvatn er svo sannarlega fallegur staður.

Það er mál manna að hvergi sé vatnið tærara en í Andakílsá og sú sjón að sjá ána liðast tígullega um Borgfirskt landslagið líður mönnum seint úr minni. Hver sá sem hefir litið hana augum er himinlifandi yfir því að þessi bergvatnsá skuli vera heilir tíu kílómetrar að lengd, þar sem hver kílómeterinn er hverjum öðrum fallegri, sannkölluð veisla fyrir augað. Margir hafa gengið sem í leiðslu fram með ánni allt frá upptökum hennar í Skorradalsvatni niður til óssins í Borgarfirði og dásama þeir hvern einasta af þeim tíu kílómetrum sem okkur sem byggjum þetta land var úthlutað til áhorfs í jarðneskri vist okkar. Það er helst við ósinn sem menn verða leiðir og þá einungis vegna þess að þeir hafa fylgt ánni allt frá bernsku til grafar.

Öll þessi fegurð fær jafnvel hina mestu svartsýnisseggi til að taka gleði sína á ný og reyta af sjer vísur ortum til heiðurs öllu því sem fallegt og gott er því að á meðan að á sem þessi rennur á landinu okkar getum við svo sannarlega verið stolt. Hinir sömu menn syngja lofsöng um hið 214 ferkílómetra vatnasvið hennar og öfunda hvern þann regndropa sem fellur innan þess, því það hlýtur að vera mesti heiður sem aumum vatnsdropa getur hlotnast, að renna niður til hafsins í hinni fögru Andakílsá.


Mynd 2 Þessi kambönd kann vel við sig í Andakílsá.

Gleði þessara sömu manna er þó engan veginn minni í júlí eða ágúst þegar rennsli árinnar er einungis 6 rúmmetrar á sekúndu en í apríl og október þegar rennslið fer jafnvel yfir fjórtán rúmmetra á sekúndu (sjá graf 2) því þeir eru að sönnu þakklátir fyrir allt sem þeir fá.

En jafnvel þó svo að Andakílsá sje frábær í alla staði getur hún eigi sigrast á náttúruöflunum og runnið upp í móti. Skorradalsvatn er í 57 metra hæð yfir sjávarmáli og það er þessum hæðarmun að þakka að áin getur runnið. Reyndar rennur hún svo vel að hún er meira að segja nýtt til að framleiða rafmagn í Andakílsárvirkjun sem sett var í gang 1947. Heil 8,4 MW er hún og á ársgrundvelli framleiðir hún 34 GWh. Það er einnig mál manna að hvergi sje rafmagnið betra en einmitt það sem búið er til úr hinum mikla krafti Andakílsár, krafturinn ku skila sjer beint í ryksugur og önnur rafmagnstæki og veita aukna ánægju við notkun þeirra.

Engar tölur fann ég um virkjaða fallhæð en hún hlýtur að vera með því minnsta sem þekkist miðað við framleiðni, vegna þess hve áin er í alla staði frábær.Sé raforkan öll seld til einstaklinga á 8,2 krónur kílówattstundinda framleiðir Andakílsá rafmagn fyrir rúmlega fjóra milljarða á hverju ári. Varla hefir framkvæmdin verið dýr því miðlunarlónið er sem áður sagði Skorradalsvatn.

Andakílsá hefur í gegnum tíðina haldið lífinu í mörgum fjölskyldunum því hún er nær ótæmandi matarkista. Í henni sprikla feitir og pattaralegir silungar og laxar sem hreinlega stökkva upp á pönnur og ofan í potta sjái þeir slíkt á bakkanum því þessir fiskar vita fátt betra en að vera steiktir á pönnu.Og hvað er svo betra en að bergja á ísköldu vatni úr Andakílsá á meðan maður gæðir sér á silunginum.


Mynd 3 Þessi silungur vill hvergi annarsstaðar vera en í Andakílsá, nema etv. á pönnu.

Í stað almúga að að afla sér búdrýginda raða sér nú feitir kaupahéðnar í löngum röðum á bakkana, berjandi frá sér með fokdýrum montprikum. Hafa þeir af þessu mikið gaman. Fiskarnir skilja hins vegar ekki neitt í neinu, enda vita þeir að borgfirskar flugur eru í mun betri holdum en þær sem burgeisarnir reyna að bjóða þeim uppá. Enda er allt svo gott í Borgarfiði.

Andakílsá er því mögnuð á sem að á eftir að halda heiðri landsins lengi á lofti.

Ó hve indælt er þig að sjá
og gaman í þjer að busla.
Í hjarta mjer hrærirðu, Andkakílsá
og í huga mjer gerirðu usla.

Engin ummæli: