þriðjudagur, 27. janúar 2004

Kaffisterkt, svo skatan nái eigi í skottið á yður.
Á eftir hverjum einasta manni læðist skata. Yfirleitt hefir hún sig hæga en sjái hún fórnarlamb sitt setjast, leggur hún til atlögu. Skólastofur, skrifstofur, bókasöfn, kirkjur, bifreiðar, sófar og fundarherbergi, allt eru þetta gósenlönd fyrir skötuna.

Skatan byrjar á því að sveima yfir höfði viðkomandi aðila, áhrifin eru ógnvænleg. Andlit hans afmyndast og fær ekki ósvipaðan svip og skatan sjálf. Að lokum sofnar fórnarlambið, skatan hefir sogið úr því meðvitundina.

Yfirleitt ná fórnarlömbin fyrri styrk eftir slíka árás, en kæstasta skötuafbrigðið er samt án efa djamm-skatan. Nái hún í skottið á mönnum er óvíst að þeir ranki við sjer fyrr en mörgum klukkustundum síðar.

Öll skrýmsl hafa sína veikleika, vampírur þola eigi hvítlauk en skatan, hún þolir eigi kaffi. Eina leiðin til að halda skötunni í burtu frá sjer er að þamba kaffi í lítravís, og þá vogar hún sjer ekki nálægt. Skatan leggur fæð á lyktina og kúgast í návist hennar.

Engin ummæli: