laugardagur, 31. janúar 2004

Af tízkuverzlun Ístaks.
Piltur einn hefir vakið forvitni Ljenzherrans sakir furðulegs smekks á fötum. Piltur þessi virðist stúdera verkfræði líkt og Ljenzherrann og hefir hann sjest spóka sig um gangana íklæddan merkjavöru, nefnilega þvottekta Ístaksjakka. Ljenzherrann hefir átt það til að taka á sig krók til að skoða kauða og þefa af honum dulítið, svo lítið beri á. Gat hann ekki betur sjed en að úlpan væri sem ný.

Ljenzherrann minnist þess að sumir sjervitrir vinnufjelagar hans hjá Ístaki hafi átt tvær slíkar úlpur, eina sem að þeir notuðu til vinnu, en aðra sem þeir brúkuðu einungis þegar þeir vildu vera fínir, til dæmis í veislur eða tja... skólann. Skyldi piltur þessi teljast til þessara manna?

Eins er sá möguleiki fyrir hendi að piltur sje einungis að vinna sig upp metorðastigann samfara menntun sinni. Hann gæti hafa gengið í verkamannasamfesting allan menntaskólann og fari svo í jakkaföt þegar hann er í Mastersnáminu. Þegar kemur að doktornum mun svo minna duga en kjólföt eða smóking.

Ljenzherrann sjálfur á úlpu sem þessa og er sú útötuð í koppafeiti, smurolíu, glussa, neysluvatni, steypu og allskyns viðurstyggð. Þar sem Ljenzherrann hefir í dag stundað launavinnu er hann íklæddur þessari úlpu ásamt rifnum gallabuxum og sóðalegum skóm. Í þessari múnderingu gekk hann sem ekkert væri eðlilegra inn í VR2, hús verkfræði og raunvísinda.

Tilgangurinn með þessari för var að mæta piltinum í hreina Ístaksjakkanum, slá hann utanundir og sýna honum hvernig slíkur jakki á undir eðlilegum kringumstæðum að líta út. Eins var Ljenzherrann undirbúinn undir það að gefa grimm augnaráð, hafa snörp orðaskipti eða jafnvel að láta hnefana tala því það er deginum ljósara að hús þetta er ekki nógu stórt fyrir þá báða.

En varðandi launavinnuna þá var Ljenzherrann afar duglegur, hann mokaði rusli í marga poka. Hann sturtaði svo úr þeim öllum aftur þvi hann hafði verið svo duglegur, að hann hafði mokað veskinu sínu í einn pokann.....

Engin ummæli: