miðvikudagur, 28. janúar 2004

Af piparbelgjum rauðum.
Hún er skemmtileg, sagan atarna sem segir frá því þegar Ljenzherrann ljet glepja sig í að eta piparbelgi rauða.

Ljenzherrann er afar stoltur maður og á erfitt með að hvika undan áskorunum. Þannig var það dag nokkurn er Ljenzherrann var átta ára gamall að hann hafði verið úti að leika sjer að legg og skel eins og barna er háttur. Klukkan var farin að nálgast sjöleitið og pilt farið að svengja eftir alla útiveruna. Hljóp hann því eins og fætur toguðu heim á leið, á vit föður síns.

Föður sínum mætti hann í borðstofunni, en þar sat hann náhvítur í stól með fernur og flöskur á víð og dreif í kringum sig. Piltur spyr:

-“Heill og sæll faðir góður, ég hefi verið úti að leika með gullin mín í allan dag og hefir nú tekið að svengja.”

-“Kæri Ljenzherra, ég hefi staðið í ströngu síðustu tímana við að elda kvöldmat sem sæmandi er slíkum uppvaxandi fríðleikspilti sem þjer eruð. Þjer þurfið kjarnmikinn kvöldmat, barnið mitt, svo þjer getið vaxið og dafnað úr góðum dreng til málsmetandi manns. Ég hugðist elda handa yður rjett úr piparbelgjum rauðum, en eg gerðist slíkt flón að bragða á einum þeirra. Mjer var refsað fyrir forvitni mína.”

-“Víst eru piparbelgir rauðir frægir að endemum fyrir beiskt bragð sitt faðir, en vjer trúum því trauðla að jurt þessi sje svo römm að náttúru sem þjer segið.”

-“Þjer getið þá bragðað sjálfir, herra Ljenzherra, og þá sjáið yður að faðir yðar hefir lög að mæla.”


Ljenzherrann ljet eigi segja sjer þetta tvisvar heldur greip þann næsta rauða belg sem hann náði í og gerði honum góð skil. Belgir þessir eru þess eðlis að logar þeirra kveikja eigi samstundis í koki heldur gefst tími til að fylla alveg á sjer munninn áður en maður gengur af göflunum.

Ljenzherrann var kominn með heilan slíkan belg upp í sig og japlaði á honum með yfirlætissvip þegar að kviknaði í kjafti hans. Hans fyrstu viðbrögð voru að rjúka inn á bað og undir kranann, en viti menn, vatnslaust var í hverfinu og því eigi deigan dropa að fá úr krananum. Næsti viðkomustaður var því ísskápurinn, en það eina fljótandi sem fyrirfannst þar var tómatssósa, öllu drykkjarhæfu hafði verið raðað í kringum föður Ljenzherrans þar sem hann sat sem hin hvíta næpa við borðstofuborðið. Þegar betur var að gáð voru allar fernurnar og flöskurnar tómar, en innihald hafði faðirinn notað við sitt eigið slökkvistarf.

Nú voru góð ráð dýr því kjafturinn logaði í Ljenzherranum sem hann hefði tekið bita af vítiseldi. Hvað átti Ljenzherrann nú til bragðs að taka? Svarið var eigi langt undan, hitaveituvatn og tómatsósa, fussandi og sveiandi hljóp Ljenzherrann inn á bað svolgraði í sig hitaveituvatni þar til það varð svo heitt, að það var farið að brenna hann til jafns við það sem var inni í munninum, en þá gerði hann tómatssósunni góð skil.

Síðan settust þeir feðgarnir saman í borðstofuna, sá eldri glotti.

Engin ummæli: