fimmtudagur, 18. desember 2003

Það tilkynnist hjer með að Ljenzherrann af Kaffisterkt hefir lagt fje til höfuðs þeim Brønsted & Lowry. Eins hefir hann á stefnuskrá sinni að hafa upp á þeim sem skilgreindi afoxun og oxun, oxara og afoxara, oxunar-afoxunarhvörf þar sem oxarinn afoxast með oxun en oxar afoxarann með afoxun sem fær rafeindir fyrir greiðann en oxarinn missir rafeindir og afoxast með oxun....... AAAAAAARRRRRRRRGGGGGGGGG!!!!!!!!!!. Hvernig í ósköpunum stendur á því að þetta er gert svona flókið, af hverju fær eitthvað svona að viðgangast í kennslubókum áratugum saman, námsmönnum til hrellingar. Þetta er sennilega allt út af einhverri bölvaðri hefð, fari hefðin í rassgat og efnafræðin með.

Annars átti Ljenzherrann afar ágætt samtal við pilt nokkurn í gærkveldi. Piltur þessi var í þeim sömu sporum að standa frammi fyrir prófi í almennri efnafræði 1V og þykja fátt jafn óspennandi en PH gildi, rafefnafræði, jafnvægisfastar og hvarfhraðajöfnur. Tilkynnti piltur Ljenzherranum frá því að prófið yrði 70% krossapróf og þá datt þeim fjelögum í hug að taka með sjer tening í prófið, hann myndi sennilega hitta oftar á rjett en þeir.

Það væri án efa frekar fyndið að sjá manninn fyrir framan sig kasta teningi í hinni mestu rósemd og merkja svo við viðeigandi kross, því miður gleymdu þeir báðir þessari snjöllu hugmynd sem hefði án efa vakið kátínu mikla.

En prófin eru nú búin og getur Ljenzherrann því einbeitt sjer að því sem að honum finnst skemmtilegast að gera; ekki neitt.

Engin ummæli: