föstudagur, 19. desember 2003

Ljenzherrann er nú óðum að endurheimta fyrri styrk eftir að hafa fagnað próflokum. Langt er síðan Ljenzherrans líkama var drekkt í áfengi síðast, enda brást hann hinn versti við og hefndi sín í dag. Heilanum líkar ekki að undan honum sje grafið og hann sviptur völdum með þessum hætti, bauð hann því upp á hausverk í dag og maginn upp á þembu. Heilinn, sem að hefir verið konungur í ríki sínu og hrókur alls fagnaðar undanfarnar vikur í próflestrinum, er hin mesta primadonna og fer hann jafnan í verkfall þegar áfengisstyrkur í blóði er orðinn svívirðilega hár. Þegar heilinn er farinn í verkfall grípa eistun yfirleitt tækifærið og hafa vit fyrir Ljenzherranum, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Ljenzherrann hefir þegar tilkynnt líffærum sínum að þess verði ekki langt að bíða þar til þau verði aftur marineruð í áfengislausn, slíkt gæti farið fram á laugardaginn. Ekki var almenn ánægja með þessar fregnir heilinn fussaði og sveiaði, vildi frekar fagna með því að leysa krossgátur og einnig kvörtuðu bæði lifur og nýru ákaflega. Eistun voru hinsvegar alveg í skýjunum og eru þegar farin að undirbúa eitthvert plott til að hrinda í framkvæmd þegar þau komast til valda.

Heilinn er um þessar mundir að gera allsherjar hreingerningu og er að sortera það sem á að geyma og því sem á að fleygja. Meðal þess sem á að hirða eru hinar ýmsu staðreyndir sem Ljenzherrann nam úr airliners.net en öllu um eðlisfræði, stærðfræðigreiningu, samfelldaraflfræði, rekstrarfræði og efnafræði verður samstundis hent. Er það þegar komið niður í banakringluna og bíður eyðingar.

Engin ummæli: