þriðjudagur, 23. desember 2003

Ljenzherrann bregður sjer á kvikmynd.
Ljenzherrann fór nú um síðasta laugardag á mynd númer þrjú í kronikkunni um hinn mikla hring. Sjer til skemmtunar hafði hann daginn áður hringt í Kjötiðnaðarmannaleiguna ehf. og leigt sjer kjötiðnaðarmann til að hafa með sjer á sýninguna.

Kjötiðnaðarmannaleigan ehf gerir út kjötiðnaðarmenn til fjelagslegra nota sem henta ákaflega vel fyrir til dæmis veislur, samkomur nú eða leikhús eða kvikmyndasýningar.

Á leiðinni í kvikmyndahúsið bað kjötiðnaðarmaðurinn Ljenzherrann að segja sjer í stuttu máli hvað hefði gerst í fyrri myndunum tveim. Varð Ljenzherrann svo hneikslaður er hann heyrði af fáfræði kjötiðnaðarmannsins að hann missti kjálkann í fang sjer og bað kjötiðnaðarmanninn að stöðva í lúgusjoppu hið snarasta.

Þegar í lúgusjoppuna var komið rak Ljenzherrann út á sjer trýnið og mælti.
“Heyrðu góði, ætlarðu að gefa mjer einn á´ann.”
-“Alveg sjálfsagt, með hægri eða vinstri, með flötum eða krepptum lófa?”
“Flötum hægri takk!”’
BAMM!!
“Þetta var ágætt, annan til!”
BAMM!!
“Jæja góði, hvað skulda ég þjer?”
-“Látum okkur nú sjá, tveir hægri flatir... það gera tólfhundruðognítíu krónur.”
“Tólfhundruðognítíu fyrir tvo skitna löðrunga! ÉG HELD NÚ SÍÐUR, ÉG LÆT EKKI RÆNA MIG UM HÁBJARTAN DAG!!! ÞÚ GETUR ÁTT ÞÍNA LÖÐRUNGA Í FRIÐI!!! Hjer færðu tilbaka hægri flatan!!!” öskraði Ljenzherrann og gaf honum hressilega á lúðurinn. “ og hjer kemur frændi hans!!! BAMM!!!! TAKK FYRIR VIÐSKIPTIN!!”

Þegar Ljenzherrann hafði skilað löðrungunum með rentum og renturentum öskraði hann á kjötiðnaðarmanninn að haldið skyldi af stað með hraðasta hætti.

Kjötiðnaðarmaður þessi virtist þeirrar náttúru gæddur að geta sofnað í flestum stellingum nema ef til vill lóðrjettri. Var vart búið að slökkva ljósin í kvikmyndasalnum fyrr en kauði var sofnaður og farinn snúa sjer og umla og hrjóta strax í fyrstu auglýsingunni.

Ljenzherrann greip því til sinna ráða til þess að þagga niður í honum, gafst best að skvetta yfir hann gosdrykkjum og/eða beita hann ofbeldi.

Það var ekki nema í mestu bardagaatriðunum sem hann vakti af sjálfsdáðum en þá skríkti hann af gleði eins og lítið barn. Eitt sinnið í myndinni þegar höfuð og búkur einhverrarar persónurnar höfðu slitið samvistum og blóðsspýjurnar stóðu í allar áttir sneri kjötiðnaðarmaðurinn sjer að Ljenzherranum og sagði stoltur:”bara eins og í vinnunni hjá mjer, þetta kann eg að gera! Ég vona að þeir fari að úrbeina líka”

Að lokum leið vondi kallinn undir lok (nei í alvöru!!!!) og að því loknu fór klukkutími eða svo í að para sögupersónur saman við fallega maka, eins var það gert fyllilega ljóst að allir myndu lifa vel að eilífu.

Hvorki Ljenzherrann nje kjötiðnaðarmaðurinn sáu eptir þeim fimm klukkutímum sem fóru í þessa mynd, þrátt fyrir að hafa fengið legusár, blóðtappa og drep í útlimi.

Engin ummæli: