sunnudagur, 28. desember 2003

Ljenzherrann af Kaffisterkt og kúbeinið atarna.
Ljenzherrann rak augun í auglýsingu í Frjettasneplinum á aðfangadag þar sem auglýst var eftir hraustum mönnum tímabundið í timburvinnu. Þar sem að Ljenzherrann er fátækur námsmaður hringdi hann og er hann heyrði að viðkomandi væri búinn að ráða í þessa stöðu hóf Ljenzherrann upp raust sína og dásamaði sjálfan, sig reynslu sína og hreysti. Einnig minntist hann á að hann væri dverghagur á málm og trje og hefði reyndar fæðst með hamar í annarri hendinni og sög og sandpappír í hinni. Þótti það mikið undur á sínum tíma og engu minna kraftaverk var þegar hann smíðaði sína fyrstu vöggu sjálfur, þá nokkurra daga gamall.Þótti vaggan mikil listasmíði og þá einkum og sjer í lagi freskan af Marju mey sem hann skar út í höfðagaflinn.

Hvert meistarastykkið á fætur öðru leit svo dagsins ljós upp frá þessu og vart var búið að venja Ljenzherrann af bleiunni fyrr en hann var orðinn frægur gestafyrirlesari í virtustu trjesmíðaskólum veraldar.Ljenzherrann væri því lausnin á öllum hans vanda, innan stokks sem utan og mikið glappaskot væri fyrir ábyrgan iðjuhöld að láta sjer Ljenzherrann úr greipum ganga.

Það fór nú svo að Ljenzherrann var ráðinn á tvöföldu kaupi.

Varðandi kaup og kjör brúkar atvinnuveitandinn gjaldmiðilinn “verkamannalaun”, en Ljenzherrann er eigi allviss hvurnig hann stendur gagnvart íslensku krónunni.

Ljenzherranum þykir gaman að vinna verkamannsins starf. Hann fær eitthvað út úr því að bogra sveittur yfir þakklæðningu og spæna hana niður í tannstöngla. Ljenzherrann mundar kúbeinið valdsmannlega og naglar og timbur skjálfa af hræðslu, hann ræðst til verks, naglar og flísar spítast í allar, áttir, kúbeinið og Ljenzherrann eru eitt. Hann tekur sjer þó stundum hlje til að þurrka svitann af enninu á sjer og íhugar um leið hve hann sje mikill karlmaður, svo fer kúbeinið af stað aftur.

“Ein sex”, “batningar”, “doki” Er Ljenzherrann farinn að tala tungum?-Nei, hann er einungis að slá um sig með bransamáli. Til að atvinnuveitandann gruni ekki að hann hafi keypt köttinn í seknum og uppgötvi eigi að“Lausn allra hans vandamála” sje honum ekkert annað en höfuðverkur og plága gengur Ljenzherrann á milli manna og á við þá samtöl þar sem hann treður slíkum orðum inn hvar sem hann getur.

“Ég var að rífa dokaflekana af steypunni í gær, heldurðu að knektin hafi ekki bara oltið um koll, það hefir einhver neglt batningana með treitommu þar sem þurfti fírtommu!”
-“Uh... já.. var það?...”
“Það gengur ekki að slípa geirneglda “ein-sex” á dregara með P-120, betra að byrja með P-80, alls ekki fínna, annars er ekki hægt að bæsa þær, maður hefur nú lent í því í gegnum tíðina maður..að geta ekki bæsað. Nei sko bara með “De Walt” geirungasög, góður á því! Skrambi góður hamar sem að þú ert með, ég er einnig Estwing-maður, Bond notar “Walther PPK” en við notum Estwing! Hvað er þinn þungur?
-“uh... ég bara veit það ekki”
“Má ég sjá...Já ertu með 250 gramma útgáfuna, alger SLEGGJA!! þeir tíðkast nú hinir þungu hamrar, ha? Fyrr má nú aldeilis reka en kafreka! Kafreka “Gunnebo” naglana í “Mahogny” kanski ha? Þeir klikka ekki naglarnir frá “Gunnebo”! Nú jæja... “Hitachi-koki” batterísvjel... finnst þér “torx” betra en stjörnuskrúfur og “phillipshead”?, sko stjörnuskrúfurnar voru bylting á sínum tíma en “torx” maður!!!! Alger bylting! Fer ekki ofan af því!, ég svaf varla fyrir spenningi fyrstu vikurnar eftir að þetta kom, dásamlegar skrúfur allveg hreint, ljetta mönnum lífið þessar skrúfur, mönnum sem skrúfa mikið, eins og ég og... náttúrulega þú”
-“uh... ég þarf eiginlega að fara og gera svolítið..”
“Allt í lagi fjelagi.. dahhh. uuushhh(innsog um samanbitna kjálka en opnar varir).., ég fer þá bara að smíða eitthvað, eins og ég kann og get...... að smíða, það kann ég, já og sei sei................ÉG ER SMIÐUR!!!!!!!!!!!!!!”

Engin ummæli: