föstudagur, 28. nóvember 2003

Í bókhlöðunni er hlið á hæðinni fyrstu með þjófavarnarkerfi. Allir sem eiga erindi inn í hlöðuna þurfa að fara í gegnum þetta mjóa hlið. Væri sótt að Ljenzherranum með her manna myndi hann velja orrustunni stað í þessu hliði og þar hafa einmitt hausaveiðarar frá Landsbankanum hreiðrað um sig undanfarna daga. Úr þessu vígi sínu gera þeir hróp að nemendum og lofsyngja Landsbankann og þau debetkort sem þar bjóðast.

Sem tálbeitu hafa þeir á borðinu eyrnatappa og súkkulaði, sem eru algerar nauðþurftir fyrir stritandi námsmenn. Hætti sjer einhver í seilingarfjarlægð að góssinu fær hann að gjalda fyrir það með því að þurfa að hlusta á mikla lofgjörð um "Námuna", innlánsvexti, yfirdráttarheimildir og Q-matic biðraðakerfið. Hinum óheppna er gert það fullkomlega ljóst að hann getur losað sjálfan sig úr prísundinni á hvaða tíma sem er með því að skrifa undir.

Ljenzherrann var einn af þeim sem hugðist næla sjer í eyrnatappa og hætti sjer því of nálægt. Þegar Ljenzherrann nálgaðist kviknaði blik í augum hrægammsins og hann fór að sleikja út um og nudda saman höndunum. Hefði hrægammurinn, sem var öldruð kona, sleikt öllu lengur hefði hún þurrkað af sjer allan skærbleika varalitinn sem var í stíl við skærbleikan trefil hennar, það fór hrollur um Ljenzherrann þegar hann leit klæðaburð hennar augum.

Ljenzherrann er þess fullviss að þegar aflátsbrjefin voru seld sem mest hjer um árið og áttu að tryggja mönnum eilífa sæluvist í himnaríki hafa þau ekki hlotið jafn mikið lof og hrós og Landsbankinn hlaut hjá þessari gömlu konu. Hún var eins og gráðugur sálnasafnari sem iðaði í stól sínum eftir að einhver seldi henni sál sína fyrir tjekkareikning og geisladiskaveski.

Ljenzherrann sem kann sitthvað fyrir sjer í hernaðarlistum hugðist gera svokallað "Blitzkrieg" sækja snöggt og harkalega þannig að sú gamla vissi ekki hvaðan á sig stæði veðrið. Ljenzherrann lagði til atlögu og fyllti lúkur sínar af eyrnatöppum og súkkulaði. Hann hafði hinsvegar vanmetið andstæðing sinn og lenti í heilaþvottargildrunni, hann reyndi að verjast, reyndi að hugsa illa um Landsbankann, var alltaf að reyna að sleppa í burtu en hún hjelt alltaf áfram og otaði að honum umsóknareyðublöðum og pennum.

"Sjáðu þennan penna, þú færð svona penna ef að þú ferð í vaxtalínuna, viltu ekki prófa hann.....?"

Eftir að kerlingarbuddan hafði vaðið á súðum í þrjár mínútur og Ljenzherrann kominn með pennann í lúkurnar tók hann sig taki, grýtti pennanum í kerlinguna, tók eyrnartappa af borðinu og tróð þeim í eyru sjer með hátíðlegu látbragði, sigur var unninn.

Ljenzherrann var ekki lengi að koma til sjálfs sín þegar söngur sírenunnar var þagnaður "Þetta eru alveg rosalega góðir eyrnatappar" sagði Ljenzherrann með fullann munninn af súkkulaði svo það frussaðist á hin hálfskyggðu gleraugu gömlu konunnar, " maður heyrir barasta ekki neitt!" sagði hann og tróð upp í sig ennþá meira súkkulaði.

Tálkvendið var samt ekki á því að gefast upp og fór því bara að tala hærra, Ljenzherranum líkaði það ekki allskostar og fór því að umla stundarhátt til að losna við niðinn úr gömlu konunni sem barst í gegnum búkhljóð hans sjálfs sem mynduðust við súkkulaðiátið. Hann sagði þó "HA!!" öðru hverju, svona til að ergja Grýlu. Kerlingin brást nú öll hin versta við, hrifsaði í burtu súkkulaðiskálina og fór að hrópa af öllum lífs og sálar kröftum:"ÞAÐ ERU MJÖG GÓÐIR VEXTIR Á DEBETKORTINU, ÞÚ FÆRÐ GEISLADISKAVESKI OG PENNA!!!"

Frá nátturunnar hendi eru gamlar konur ekki vel til þess fallnar að öskra og því þurfti hún að hafa sig alla við, hoppandi og skoppandi,"LANDSBANKINN ER MEÐ ÚTIBÚ Í HÁSKÓLABÍÓI, HEYRIÐU ÞAÐ!!!!!" Ljenzherrann ljet þetta lítið á sig fá, komst bara í jólaskap ef eitthvað var, "súkkulaði og öskrandi kerlingar með bleikan varalit, það vantar bara malt og hangiket, þá væri maður í bissness" hugsaði hann með sjer.

Þegar nú var komið við sögu höfðu lætin í kerlingunni borist um allt bókasafnið, og í kjölfarið var henni sparkað út með skömm, "Svona hegðar maður sjer ekki á bókasafni herfan þín" sagði maður með bindi og annar maður sem var öllu minni og pervisnari, bætti við "já!" einhverstaðar úr felum bakvið þann stærri.

Ljenzherrann ljómaði nú af ánægju og sparkaði í Gavon þar sem hann kom hlaupandi til að fagna honum. Saman fóru þeir svo upp að læra, Ljenzherrann í samfelldaraflfræði og stærðfræðigreiningu en Gavon fjekk litabók og trjeliti.

Engin ummæli: