sunnudagur, 30. nóvember 2003

Björn frá Sauðlauksdal hét maður nokkur, afskaplega frægur fyrir áhuga sinn á landsins gagni og náttúru. Telja má víst að þessi áhugi hans sje sprottinn vegna þess að menn hafi verið að núa honum sauðlaukum um nasir.
“Hvar eru þessir sauðlaukar sem dalur þinn er kenndur við, Björn?”
Ljenzherrann telur þetta hinsvegar allt hinn mesta misskilning og ekki þann fyrsta í íslandssögunni, Björn hafi ekki komið frá Sauðlauksdal heldur Rauðlauksdal.
Rauðlaukur er nefnilega laukur ágætur og sinnir starfi sínu og skyldum vel.

Annar þráleitur misskilningur er þegar menn tala um “Spaghetti Bolognese” og telja það ítalskan rjett. Fátt er reyndar jafn fjarri lagi, þessi rjettur er alíslenskur og er ættaður úr Andakílshrepp. Borgfirskar húsmæður hafa löngum þótt með þeim betri og eru afar eftirsóttar víða erlendis bæði til nytja og skrauts. Eitt þótti þó frá þeim öðru betra. Þegar spaghetti-æðið var í sem mestum algleymingi með tilheyrandi prjónaskap og tilraunarstarfssemi uppgötvuðu þessar ágætu fraukur frábæran rjett, soðinn úr túmötum og hökkuðum borgfirskum nautgripum, bar hann nafnið “Spaghetti Borgarnes.”

Rjettur þessi þykir ljúfmeti og fjell vel í kramið hjá sveitungum, nær og fjær. Engin kann á honum betri skil en Sigríður frá Stóra-Kroppi. Er þar ekki í kot vísað og hjá henni eta menn sjer til óbótar, sjeu þeir eigi stoppaðir af.

Engin ummæli: