þriðjudagur, 28. október 2003

Af Ljenzherrans samkvæmissiðum.
Síðastliðið föstudagskveld var haldinn kennarafagnaður í byggingarverkfræðiarmi hins háa skóla. Klæddi Ljenzherrann sig upp í fínt púss í tilefni dagsins og þar sem að áfengi var á boðstólum var hann ekki jafn virðulegur þegar hann kom heim og þegar hann hafði farið út.

Allajafna er Ljenzherrann afar rólegur maður og ekkert að flíka göfugum uppruna sínum og þeirri brennandi sannfæringu sinni að hann sje betri en aðrir menn, en það á til að breytast þegar öl er komið í kauða.

Eftir matinn var boðið uppp a hrútleiðinlega skyggnusýningu af fólki sem Ljenzherran kannaðist ekki við, og eigi vill hann heyra nafn þess nefnt í sömu andrá og sitt eigið. Sjálfum sjer til sáluhjálpar greip Ljenzherrann til þess drekka ótæpilega og varð honum framan af nokkur hjúkrun af. En skyggnusýningin var bæði löng og leiðinleg og þegar þolinmæði hins háa herra var á þrotum var honum farið að þykja tilefni til að tilkynna nærstöddum að sjálfur Ljenzherrann af Kaffisterkt heiðraði viðstadda með nærveru sinni. Ljet hann verða af þessari hugmyndi og til að gulltryggaj alltsamant feygði hann skyggnuvjelinni í gólfið og gerði hróp að þeim sem kvalið hafði hann svo mjög, síðastliðið korterið. Þegar hann hafði hrópað nægju sína á skyggnulýsingarmanninn þótti honum eigi úr vegi að tilkynna opinberlega hvað sjer þætti betur mega fara í fari annarra gesta auk þess sem helstu lýti þeirra voru tíunduð með tilvísunum í frægar skáldsögur.

Ljenzherrann af kaffisterkt hafði vart komist á flug í frásagnargleði sinni fyrr en hann hafði verið króaður af úti í horni, af hópi minnipokamanna, manni með stóran haus og höltum manni frá Nýja-Sjálandi sem af tilviljan hafði átt leið hjá.

Eftir að hafa brett upp ermarnar og spítt í lófana ljet Ljenzherrann vaða á hópinn, eins og honum einum er lagið, og önnur eins slagsmál hafa eigi sjest hjer á landi síðan á sturlungaöld. Var lögregla, víkingasveit og her af sjúkrabílum kallað til. Allt var hinsvegar með kyrrum kjörum þegar lögregla ruddist inn en þar blasti við snyrtileg hrúga af minnipokamönnum og manni með der fyrir utan að mógúll einn spígsporaði uppi á borði, eins og fínn maður, og bað viðstadda um að bugta sig og beygja.

Til stemmingarauka hafði verið pantaður gítarleikari til að gulltryggja hátíðleik stundarinnar. Gítarleikarinn sem fyrr um kveldið hafði sungið af eymd um Nínu og Álfheiði Björk var nú farinn að öskra sig hásann af hetjusöngvum. Hetjusöngvar þessir voru Ljenzherranum af Kaffisterkt til heiðurs og spunnir á staðnum.

Eigin nafni svaraði Ljenzherrann einungis með formælingum og bölsóti, kvaðst heita Napóleon Bónaparti og bað um að sjer yrðu færðar brennivín og fínir vindlar, klámvísur væru einnig vel þegnar. Barþjónninn hljóp til með flösku af vermúð sem Ljenzherrann hrifsaði af honum og heimtaði svo hórur, helst feitar.

Þegar lögregluvarðstjórinn gekk inn sagði hin drukkna hetja; ,,í hvíldarstöðu herra varðstjóri, ágætt, þjer eruð komnir að sækja uppreisnarseggina” og fjekk sjer vænan sopa af stút, frussaði því svo öllu út úr sjer framan í barþjóninn og tilkynnti greyinu að þetta væri álika lítilfjörlegur sopi og hann hefði orðið til úr og að sjer þætti getnaður hans, og tilvist yfir höfuð, afskaplega slæm hugmynd. Einnig minntist Ljenzherrann á að ef að honum yrði boðið upp á slíkt hland aftur myndi barþjónninn fyllast sömu sannfæringu og faðir hans, að hann hefði betur farið í lakið.

Varðstjórinn hugðist því næst sinna starfi sínu og skyldum og sigaði liði sínu á Napóleon af Kaffisterkt og þurfti miklar æfingar og talsverðar uppflettingar í fantabragðabók lögreglunnar til að ná böndum á brjálaðann manninn.h

Honum var troðið inn í bíl, en slíkt farartæki hafði hann aldrei sjeð áður, að eigin sögn. Loks komst ró yfir kauða en skap hans hófst aftur í hæstu hæðir er Viðey blasti við í sjóndeildinni. Eftir að hafa verið sannfærður um að hann væri ekki á leiðinni út í Viðey, eða Elbu eins og hann kallaði hana var það eina sem hann sagði;,, Nú jæja.. þá er fallöxin.”

,,Jæja og hvað heitir þú?” Spurði rólegheitamaður með yfirvaraskegg

-,,Napóleon Bónaparti, keisari þinn og landsfaðir, ég skipa þjer að láta mig lausann þegar í stað!!!”

-,,Einn af þeim... Logi koma tala við varðstjóra..... fara með þennan... það er klefi 12, Lalla veitir ekki af fjelagsskap”

Og þegar hin mikla hetja var leidd í burtu tautaði hann í skegg sjer ,,....mannasiðunum hjer í bastillunni hefir hrakað....”

Og lýkur hjer frá samkvæmissiðum Ljenzherrans af Kaffisterkt að segja.

Engin ummæli: