þriðjudagur, 30. september 2003

Nú virðist sem þetta bölvaða Idol tröllríði öllu og varla sé til sá staður sem mengast ekki af þessari bandarísku lágmenningu. Ekki einusinni verkleg eðlisfræði í háskóla íslands fer varhluta af þessari þróun.
Þannig voru mál með vexti að ég var staddur inni í verklegu stofunni í dag, sem áhorfandi en ekki sem nemandi, og þar tók ég eftir svolitlu fyndnu. Þar sá ég hrellinn mikla Ara Ólafson þar sem hann sat við borð og kallaði til sín taugaveiklaða nemendur af handahófi. Hann fletti svo í gegnum vinnubækurnar þeirra og hakka þær í sig. Hvorki BubbiSímon hafa roð í Ara Ólafsson á góðum degi. Hann setti út á allt, það sást varla í blátt blek fyrir hnitmiðuðum leiðréttingum, skyssum og krassi sem virtist hafa orðið til í mikilli bræði. Og svo þegar hann var að tilkynna nemendunum hversu ömurleg frammistæða þeirra væri var það eina sem þeir gátu stunið upp það nákvæmlega sama og maður heyrir í Idol.

Ari:,, Hvað kallarðu þetta???"
nem: ,, Já, ég veit alvega að þetta var ekki nógu gott hjá mér, ég veit samt að ég get gert betur"
Ari: ,, En óvissan var alveg út í hött, ég held að þú sért bara ekki tilbúinn"
Nem: ,,Jú gerðu það, ég veit að ég get svo miklu betur, þú verður að leyfa mér að gera snúningshraðatilraunina..."
Ari:,, Ertu búinn að reikna mikið í Karokí?"
Nem:,,Já svoldið"
Ari:,, Já hættu því, þú verður að fara að nota radiana núna.."

Helsti munurinn var reyndar sá að stundum kom það fyrir að menn færu brosandi í burtu í sjónvarpinu, en ekki í verklegri eðlisfræði.

Engin ummæli: